Almennt

Holtsvegur 2, 4 og 6 er fjöleignarhús sem myndar eina samstæða heild. Húsið skiptist í þrennt með stigakjörnum sem eru þriggja, fjögurra og fimm hæða með samanlagt 24 íbúðir. Holtsvegur 2 og 4 hafa aðalinngang garðmegin, en 6 frá Holtsvegi að ofan. Efsta hæð Holtsvegar 4 er inndregin og allir stigagangar eru gegnumgengir með póstkassa garðmegin. Hæðarmismunur á milli húsa er tekinn út í landi með skábrautum og stígum. Allar íbúðir eru hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar, þar sem lámarksbreytinga er þörf til að uppfylla öll skilyrði um algilda hönnun.

Aðkoma og bílastæði sem nýtast lóðinni eru þrískipt skv. deiliskipulagi. Alls eru 48 bilastæði sem fylgja íbúðunum. Meðfram Holtsvegi eru 6 stæði samsíða götu. Þá eru 26 stæði meðfram aðkomugötu innan lóðar og 22 stæði þar af þrjú sérmerkt hreyfihömluðum, inni á kjarnasvæði lóðar. Frá garðrými er lóð hönnuð með aðgengi fyrir alla, í tengslum við þrjá aðalinnganga hússins. Framan við og meðfram húsinu liggur breiður göngustígur er tengir innganga við bílastæði og aðliggjandi almenna göngustíga við sinn hvorn
endann.

Sorpgeymsla og flokkun sorps er í óupphituðum opnum útiskýlum garðmegin við húsið, veggir eru timburveggir (greni) og þak er óeinangrað timburþak. Gólf er steypt með halla að niðurfalli. Fjöldi og stærð tunna/gáma er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Sorp er flokkað í þar til gerð ílát, stærð og gerð samkvæmt reglugerð og kröfum bæjaryfirvalda.

Geymslur eru fyrir hverja íbúð, ásamt inntaks- og tæknirýmum í kjallara hvers matshluta fyrir sig.

 

Hönnuðir

Arkitekt: Arkís arkitektar ehf.
Burðarþol og lagnir: Verkfræðistofa Þráinn og Benedikt ehf.
Raflagnir: Verkhönnun ehf.

Frágangur utanhúss

Veggir:
Húsin eru staðsteypt og einangruð að innan. Náttúrusalli er á útveggjum 1. hæðar. Efri hæðir eru filteraðar og málaðar í ljósum lit, Veggir við svalir eru klæddir með greniklæðningu.
Stigahús eru einangruð að utan og klædd litaðri álklæðningu. (RAL 7010)

Gluggar og hurðir:
Gluggar eru álklæddir timburgluggar, hvítmálaðir að innan en álklæðning að utan í RAL 7010 lit. Gler er hefðbundið K-gler og öryggisgler þar sem krafa er um slíkt í byggingareglugerð.

Þak:
Þök eru með ásoðnum pappa, steinullareinangrun með vatnshalla, PVC vatnsvarnardúkur, filtdúkur og ávölum steinvölum samkvæmt teikningum hönnuða.

Handrið:
Á svölum íbúða er möguleiki (ekki innifalið) að setja upp svalalokun með póstlausu glerjunarkerfi, en handrið eru af gerðinni „Cover“. Handrið utanhúss eru samkvæmt teikningum arkitekta.

Lýsing:
Rafmagnstengill og lampi eru á svölum og almenn lýsing við innganga samkvæmt reglugerð. Svæðislýsing er við göngustíga garðmegin, við sorpgerði og bílastæði.

Lóð:
Bílastæði eru hellulögð og akstursleiðir malbikaðar, afmörkun bílastæða lituðum hellusteinum. Þrjú bílastæði á lóð verða merkt hreyfihömluðum og eru þau upphituð. Gangstéttar og sérafnotasvæði eru hellulögð og steypt samkvæmt teikningum hönnuða. Hitalögn er í helstu gönguleiðum. Grasflatir verða þökulagðar. Leiksvæði barna og dvalarsvæði almennings er komið fyrir í skjól- og sólarbesta stað lóðarinnar, fyrir miðjum armi hússins og aðstaða þar fyrir leiktæki. Á svæðinu er einnig rými fyrir borð og bekki, grillaðstöðu og flaggstöng.

Húsnúmer:
Húsnúmer verða sett upp við innganga á áberandi stað .

Frágangur innanhúss

Veggir:
Útveggir eru steyptir og einangraðir að innan pússaður og málaðir. Veggir milli íbúða og stigahúss eru að lágmarki 250mm. Milliveggir innan íbúða eru að hluta til steyptir en aðrir eru hlaðnir með vikursteini og múrhúðaðir. Veggir í íbúðum eru sléttsparslaðir og málaðir hvítum lit. Á veggi er hvítur málning með 7% gljáa en á baðherbergjum og þvottahúsum er hvít málning með 20% gljáa, rakaþolin og með gerlavörn. Veggir á baðherbergjum eru flísalagðir upp í c.a. 2,3. Flísar eru í ljósgráum lit.

Loft:
Loft eru sléttsandspörsluð og máluð með hvítum lit með 4% gljáa.

Gólfefni:
Á baðherbergjum og þvottahúsum er gólf flísalögð. Íbúðir afhendast fullbúnar án gólfefna í öðrum rýmum en baðherbergjum og þvottahúsum. Skylda er að nota hljóðdúk undir gólfefni. Samkvæmt teikningum arkitekta verða gólf að uppfylla kröfur m.v. flokk C skv. ÍST45, t.d. með hljóðdúk sem undirgólfefni.

Stigakjarnar
Húsið skiptist í þrennt með stigakjörnum sem eru þriggja, fjögra og fimm hæða. Stigakjarnarnir skiptast upp að með litum, þar sem húsnúmer kveður á um málaðan lit að innan, veggir og loft.
Litur á stighúsi nr. 2 RAL 5015
Litur á stighúsi nr. 4 RAL 6037
Litur á stighúsi nr. 6 RAL 3028
Gólfefni eru teppi, sem fylgja litum stigahúsa. Handrið eru sprautulökkuð og fylgja litum stigahúsa.

Innihurðir:
Innihurðir íbúða eru yfirfelldar (frá Parka) og sprautulakkaður hvítar. Hurðir inn í úbúðir úr stigahúsi eru spónlagðar, dökkar að innanverðu og sprautulakkaðar í lit stigahúsa.

Eldhúsinnréttingar og skápar:
Allar innréttingar eru hannaðar af innanhússhönnuðunum Berglindi Berndsen og Helgu
Sigurbjarnadóttur og gilda þær teikningar fyrir allar íbúðir hússins. Innréttingar eru sérsmíðaðar og frá Formus.
Eldhúsinnrétting og fataskápar eru með dökkri viðarharðklæðningu frá Egger með mattri áferð, möguleiki er á innbyggðri uppþvottavél með framhlið úr sama efni.
Borðplata í eldhúsi er hvít af gerðinni CHPL ( Compact High Pressure Laminate) með undirlímdum vaski frá Franke.
Baðinnréttingar eru hvítar sprautulakkaðar MDF með mattri áferð. Borðplata á baði er hvít af gerðinni HPL (High pressure Laminate). Allar brautir og lamir eru með ljúflokun frá Blum.

Heimilistæki:
Öll rafmagnstæki í eldhúsi, eldavél, bakaraofn og háfur, eru frá Húsasmiðjunni og af viðurkenndri gerð.

Sólbekkir:
Sólbekkir eru plastlagðir í ljósum lit.

Rafmagn:
Rofar og tenglar eru hvítir. Sjónvarpsloftnets- og símatenglar eru í öllum herbergjum, frágengnir samkvæmt teikningu. Tengill er fyrir uppþvottavél. Loftlampar eru í eldhúsi, baðherbergi, þvottahúsi og geymslu skv. reglugerð.

Hitalögn:
Húsið er hitað með miðstöðvarofnum á hefðbundinn hátt með hitastýrðum ofnlokum. Hámarks hitastig neysluvatns á töppunarstað er 65°C skv. staðli.

Hljóðvist:
Hljóðvist milli íbúða og á milli íbúða og ytri rýma er samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112 og í samræmi við ÍST45 og eigi lakari en í flokki C.

Hreinlætistæki baðherbergi/þvottahús.
Salerni er vegghengt, af viðurkenndri gerð. Handlaug í borði, með einnar handar blöndunartæki. Sturta með hitastýrðu blöndunartæki og úðara, sturtubotn flísalagður með niðurfalli. Skilrúm er úr gleri. Tenglar eru fyrir þvottavél og þurrkara.

Hreinlætistæki eldhús:
Stálvaskur með einnar handar blöndunartæki af viðurkenndri gerð. Tengimöguleiki er fyrir uppþvottavél.

Loftræsing:
Almennt eru vistarverur og önnur rými náttúrulega loftræst um opnanlega glugga. Vélrænt útsog er úr salernum og úr geymslum. Lyftugöng í húsi nr. 4 er með reyklúgu.

Geymslur í kjallara:
Útveggir að innan og steyptir innveggir eru slípaðir og málaðir hvítir. Léttir veggir eru hlaðnir og múrhúðaðir, þar sem brunakrafa er EI 90. Aðrir geymsluveggir er byggðir með trégrind, klæddir með brunaþolnum spónaplötum og málaðir hvítir. Engar hillur eru í geymslum.

Lyftur:
Lyftur frá Kone eru í hverju stigahúsi. Burðargeta hverrar lyftu er að hámarki 1.000kg.

Annað

Vegna framkvæmda kaupenda skal það tekið fram að ekki er leyfilegt að skerða burðarþol, hljóðvist og annað er tilheyrir sameign hússins. Vísað er til kvaðar um frágang gólfa og gólfefna í skilalýsingu þessari. Kaupandi gæti þurft að hreinsa sigti á blöndunartækjum nokkrum sinnum eftir að flutt er inn í íbúðina. Einnig þarf kaupandi að fylgjast vel með að niðurföll í þvottahúsi, baði og úti á svölum stíflist ekki.

Kaupandi verður að tryggja góða útloftun en í steyptum nýbyggingum er mikill raki sem mun hverfa á einu til tveimur árum. Nauðsynlegt er að útloftun sé góð og mikilvægt er að fylgjast vel með daggarmyndun innan á gleri. Ef það er ekki gert er hætta á að rakinn myndi skemmdir á gluggum, gólfefnum og málningu. Einnig gæti verið ástæða hjá kaupendum/húsfélagi að láta fínstilla vélrænt loftræsikerfi og hita- og vatnsstýrikerfi hússins eftir afhendingu.

Seljandi ber ekki ábyrgð á eðlilegri og venjulegri sprungumyndun í múr, steypu og timbri. Kaupandi má gera ráð fyrir því að þurfa að endurmála íbúð sína skömmu eftir að byggingin og byggingarefnin sem í henni eru hafa náð stöðugu ástandi. Mjög mikilvægt er að kaupendur hugi að hreinsun sigta og niðurfalla innan sem utanhúss til að koma í veg fyrir stíflumyndun.

Kjósi kaupandi að gera breytingar á íbúðinni verða þær gerðar á eigin ábyrgð í kjölfar
afhendingar.

Vísað er til hönnunargagna (m.a. byggingarnefndarteikninga) varðandi nákvæmar útfærslur á atriðum sem ekki koma fram í skilalýsingunni. Auglýsingaefni og 3D teikningar á sölusíðunni www.holtsvegur.is eru eingöngu til hliðsjónar, komi upp misræmi eru samþykktar teikningar hönnuða gildandi. Staðsetning á ruslageymslum á lóð var breytt miðað við samþykktar byggingarnefndarteikningar og þær færðar fjær húsi og mun staðsetning þeirra verða færð inn á „reyndarteikningar“ sem venja er að skila inn til byggingarfulltrúa við verklok, ef smávægilegar breytingar hafa orðið á útfærslum við húsbygginguna á framkvæmdatíma, m.v. samþykktar teikningar arkitekta. Almennt miðast skil hússins við vandaðan frágang og viðurkennd skil á nýju íbúðarhúsnæði.